Hvað er ME?

ME er skammstöfun á Myalgic Encephalomyelitis en „myalgic“ stendur fyrir vöðvaverki og „encephalomyelitis“ fyrir bólgur í heila eða mænu. ME sjúkdómurinn var áður fyrr kallaður síþreyta (Chronic Fatigue Syndrome / CFS). Sjúklingar eru ósáttir við það nafn, þar sem síþreyta er í raun aðeins eitt af fjölmörgum einkennum ME og nægir ekki til að gera grein fyrir sjúkdómnum og alvarleika hans.​

Athugið að ekki er víst að allir sem greindir eru með síþreytu séu með ME.

Útskýring á ME nafninu: My = Muscle, algic = pain, Encephalo = brain, myelitis = spinal cord inflammation

Þetta er ágætis mynd sem útskýrir nafnið Myalgic Encephalomyelitis sem þvælist fyrir mörgum.

Myalgic Encephalomyelitis eða ME

MY = vöðva
ALGIC = verkir
ENCEPHALO = heila
MYEL = mænu
ITIS = bólga

(Þetta er skammstafað ME)

Bólgur í heila og mænu með vöðvaverkjum

Nafnið ME

Nafnið ME (myalgic encephalomyelitis) kom upphaflega fram á 6. áratugnum í Englandi. Bretar nota nafnið yfir það sem kallað hefur verið síþreyta á Íslandi. Í Bandaríkjunum birtist hugtakið Chronic Fatigue Syndrome árið 1988 eftir fund nokkurra einstaklinga á vegum CDC.

Nokkrar deilur hafa staðið um hvaða nafn beri að nota um þennan sjúkdóm og hvaða sjúklingar þjáist í rauninni af honum.

Árið 2007 kom nefnd saman í Bandaríkjunum og niðurstaðan varð að nota heitið ME/CFS til að byrja með, svo myndi CFS hlutinn kannski hverfa. Margir nota enn ME/CFS, jafnvel réttindahópar ME sjúklinga. Aðrir vilja greina þetta í sundur og draga fram þann hóp sem sannarlega hefur ME.

Hjá Alþjóðlegu heilbrigðisstofnuninni hefur ME sérstakt númer (WHO: ICD-10 kóði, G93.3).

Liggjandi kona

Hin mismunandi nöfn sjúkdómsins

Það er ekki auðvelt að ræða ME og síþreytu því enn eru þessi hugtök á reiki og langt frá því að sátt sé um hvernig beri að nota þau. Línur hafa þó skýrst töluvert undanfarin ár vegna nýrra rannsókna og vaxandi áhuga á þessum sjúkdómi.

Nú líta margir svo á ME sé einn þeirra illskilgreinanlegu sjúkdóma eða heilkenna sem lent hafa undir regnhlífarhugtakinu síþreyta. Það eru því ekki allir síþreytusjúklingar með ME og með betri rannsóknum má greina þennan hóp sjúklinga í sundur.

Þá kemur í ljós að margir innan hans eiga eftir að fá rétta greiningu sem geta verið af ýmsum toga; skjaldkirtilsvandamál, Lime sjúkdómur, Lupus, þunglyndi, MS, vefjagigt, ME, eða eitthvað annað. Það er í allra þágu að hver sjúklingur fái rétta greiningu og meðferð en hringli ekki innan þessarar víðu greiningar, síþreytu. Orðið síþreyta er í sjálfu sér ekkert slæmt svo framarlega sem það er notað til að lýsa sjúkdómseinkenni sem einkennir marga sjúkdóma en ekki sem heiti á sjúkdómi eða heilkenni.

ME sjúklingar hafa því ríka ástæðu fyrir því að óska þess að veikindi þeirra séu kölluð réttu nafni. Nafngiftin síþreyta felur í rauninni í sér að það vantar að greina hvað raunverulega veldur veikindunum. Flestir ME sjúklingar hafa einhvern tímann fengið að heyra að allir verði þreyttir, þetta sé bara spurning um að herða sig upp. Þannig hefur nafngiftin gert lítið úr raunverulegum alvarleika sjúkdómsins meðal almennings, lækna og vísindafólks. Þetta hefur verið reglulegur dragbítur og tafið rannsóknir og greiningar á ME í gegnum árin.

Fjöldi ME veikra

Erfitt er að setja fram tölur um hve margir eru með ME því enn tala margir um ME og síþreytu (með öllu sem þar fellur undir) sem eitt og hið sama. Í þeim tölum sem mest er haldið á lofti er allur sá hluti fólks sem lent hefur undir regnhlífarhugtakinu síþreyta og er sá fjöldi mun meiri en fjöldi ME sjúklinga. Þar sem margir tala líka um vefjagigt og síþreytu sem nokkurn veginn það sama – eða sitt hvora hliðina á sama peningnum – er hinn mikli fjöldi vefjagigtarsjúklinga einnig oft inni í tölum sem settar eru fram um ME sjúklinga.

Eins og sjá má af ofangreindu er umræðan um ME enn í mótun. Gagnlegast er að fylgjast með þróuninni og vera tilbúinn að breyta hugsun sinni og viðhorfi gagnvart ME, síþreytu og vefjagigt.

Á Íslandi hefur lengi verið talað um síþreytu og vefjagigt nánast sem eitt og hið sama og það er ljóst að þessi veikindi skarast, það á bara eftir að koma í ljós hve mikið. Einhverjir sjúklingar sem verið hafa í óvissu eiga kannski eftir að komast að því að þeir séu alls ekki með ME heldur eitthvað annað sem lenti undir síþreyturegnhlífinni.

Hin ýmsu hugtök

ME, CFS, SEID, Síþreyta eða vefjagigt?

Abstrakt mynd

CFS = Chronic Fatigue Syndrome

Hugtak sem kom fram árið 1988 og var þýtt sem síþreyta á íslensku.

Sjúklingum þykir þetta vont nafn sem og læknum sem þekkja sjúkdóminn. Líka sérfræðingum sem skrifuðu skýrslu fyrir bandarísk heilbrigðisyfirvöld 2015. Þeir segja þetta villandi nafn sem geri lítið úr alvarleika veikindanna. Það er einmitt það sem sjúklingar hafa sagt árum saman.

Síþreyta er misskilið og rangnotað orð sem best væri að losna við úr umræðunni um ME. Í besta falli er það nytsamlegt til að lýsa sjúkdómseinkenni en ekki sem nafn á sjúkdómi.

loftmynd af fjörðum, landið er rautt

SEID

SEID er skammstöfun á Systemic Exertion Intolerance Disease og má þýða sem kerfisbundnn áreynsluóþols sjúkdómur. Þetta óþol gagnvart líkamlegri og andlegri áreynslu er í rauninni það einkenni sem greinir ME frá öðrum sjúkdómum. Það eru skiptar skoðanir um þetta nýja heiti og það virðist ekki ætla að ná fótfestu.

Bandarísk yfirvöld báðu stofnun sem heitir Institute of Medicine til að rannsaka málið og gefa skýrslu um niðurstöðuna. Í skýrslunni (IOM skýrslan) er meðal annars talað um nafnadeiluna miklu. Skýrsluhöfundar telja nafnið CFS hafa spillt fyrir og að hlusta eigi á þá sem kalla eftir nýju nafni. Niðurstaða hópsins var nafnið SEID sem stendur fyrir systemic exertion intolerance disease.

Þessi nýja nafngift leggst misvel í fólk; flestir eru fegnir að sjá orðið disease (sjúkdómur) í nafninu og fá þannig viðurkenningu á að um sjúkdóm sé að ræða.

Margir vilja þó meina að þetta nafn sé svipað CFS að því leyti að það er leitt af einkenni sjúkdómsins en ekki orsök. Mikilvægt er að hafa í huga að skýrslan er unnin í Bandaríkjunum fyrir þarlend heilbrigðisyfirvöld og hefur í rauninni ekki mikið að segja um hvað aðrar þjóðir kjósa að kalla sjúkdóminn. Mikil umræða hefur skapast um nýja nafnið. EMEA (sem ME félag Íslands er aðili að) hallast frekar að því að við Evrópuþjóðirnar höldum okkur við ME.
 
Í nafninu Myalgic encephalomyelitis felst að bólgur finnist í heila og/eða mænu. Höfundar IOM skýrslunnar telja að það sé ekki nógu vel sannað til að réttlætanlegt sé að nota þetta nafn. Aðrir benda á að rannsóknir og krufningar hafi sýnt fram á þessar bólgur svo þetta er greinilega ekki útrætt mál.

Loftmynd af landslagi. Landið er rautt

ME / CFS

Það hlýtur að vega þungt að þeir sem helst hafa kynnt sér ME og hvað þar búi að baki hafa nokkuð skýra sýn á hvernig beri að líta á þessi veikindi. 

Nú hafa 28 sérfræðingar frá 13 löndum sett fram greiningu sem kallast Myalgic encephalomyelitis: International Consensus Criteria og nota má til að greina ME sjúklinga. Þetta er uppfærsla eldri greiningar sem kom fram 2003 og kölluð var Kanadíska greiningin. Í þeirri greiningu var nafnið ME/CFS notað en nú kjósa höfundarnir að nota aðeins nafnið ME. Þetta er líklega til merkis um að skýrari sýn sé að fást á það hvað ME sé. Einnig lýsir þetta óánægju sérfræðinganna með hugtakið CFS (síþreyta) sem þeir segja hafa verið til trafala frá því að það varð til.
 
Í þeim hluta greiningarinnar sem snýr að verkjum er talað um að einn þátturinn geti einnig passað við  vefjagigt. Það er því ljóst að höfundarnir líta á ME og vefjagigt sem aðskiljanlega sjúkdóma eða heilkenni sem þó skarast á verkjasviðinu.

Skýringarmynd af vefjargigtarpunktum um líkamann

Vefjagigt

Vefjagigt (Fibromyalgia eða FM) er viðurkennt heilkenni hjá WHO og hefur ICD-10 númerið M79.0.

Það eru til mjög góðar íslenskar síður um vefjagigt, gigt.is og þraut.is.  Það er mikilvægt að hafa í huga að sú góða meðferð sem Þraut býður vefjagigtarsjúklingum upp á hentar ekki mjög veikum ME sjúklingum.

Auk verkja eru fylgja mörg önnur einkenni bæði ME og vefjagigt. Það er því ekki að furða að talað sé um þessa sjúkdóma sem náskylda og enn er ekki ljóst að hve miklu leyti þeir skarast. 
 
 
Hvers vegna skiptir máli að aðgreina ME og vefjagigt?
 
Aðaleinkenni ME er óeðlileg örmögnun eftir áreynslu. Þetta felur í sér að meðferð við ME og vefjagigt er ekki sú sama. Séu ME sjúklingar meðhöndlaðir á sama hátt og vefjagigtarsjúklingar er hætta á að þeim hraki.

Tengt efni

Rannsóknir

Mikilvægur þáttur í starfsemi ME félags Íslands felst í að fylgjast með nýjungum í rannsóknum og meðferðum á sjúkdómnum og koma þeim fróðleik áfram til félagsmanna sinna, heilbrigðisstarfsfólks og ýmissa, viðeigandi stofnanna.

Lesa meira

ME sögurnar okkar

Þegar við verðum fyrir áföllum þörfnumst við þess að fá að tjá okkur um þau. Heilsumissir er alvarlegt áfall fyrir hvern sem er og allir þarfnast samúðar og skilnings.

Lesa meira

Viðtöl, greinar og heimildarmyndir

ME félagið safnar saman efni sem viðkemur ME sjúkdómnum. Hér kennir ýmissa grasa, viðtöl, greinar og heimildarmyndir.

Lesa meira

Er Long Covid ME?

Svarið við þessarri spurningu er ekki einfalt. Flest það fólk sem glímir við langvarandi eftirstöðvar Covid sýkingar hefur ME, en þó er það ekki það eina sem getur hrjáð fólk eftir að sýkingin sjálf er liðin hjá.

Lesa meira

Scroll to Top