Upplifun úr flotmeðferð

Upplifun úr prufutíma í flotmeðferð hjá Flothettunni

Manneskja flýtur á bláu, tæru vatni

Hér er stutt samantekt fyrir þau sem vilja vita nánar um hvernig meðferðin fór fram, hvað stendur upp úr og hvað ber að hafa í huga áður en lagt er af stað. Eftir þennan prufutíma telur undirrituð ekki þörf á að Flothettan skipuleggi sérstaka tíma fyrir fólk með ME eða langvinnt Covid, enda umhverfið allt mjög rólegt og afslappað hjá þeim.

Sérstök og djúp slökun

Flotmeðferðin felst í því að fljóta í hæfilega volgu vatni með stuðningi flothettu og flotbúnaðar sem fer utan um lærin. Leiðbeinandi tekur svo við þér og leggur þig lárétt í vatnið, þá rofnar tengingin við þyngdaraflið og líkaminn fær að hvíla.

Í upphafi flots er flothetta sett á höfuðið og lagt yfir mann mjúkt teppi – já, í vatninu. Einnig voru settar augnhlífar með þægilegri þyngd sem draga alveg úr birtu. Líðanin er eins og að vera í púpu, með djúpa ró og hugarró.

Nudd, stuðningur og öruggt umhverfi

Í meðferðinni er einstaklingnum strokið og nuddað á rólegan og varfærinn hátt. Svo er fólk dregið varfærnislega um laugina og líkaminn og útlimir teygðir í ýmsar áttir. Það að vera hálfpartinn „haldið á“– líkt og barn í öruggu faðmlagi – var fyrir sum óvænt en einstaklega notalegt. Sérstaklega var þægilegt þegar leiðbeinandi notaði hrjúfa hanska í mjúkum strokum, sem veittu gott skynáreiti án þess að vera yfirþyrmandi.

Að sleppa stjórn, missa tilfinningu fyrir áttum og einfaldlega leyfa vatninu að bera sig reyndist mjög slakandi. Lágvært hljóð vatnsins og léttir straumar frá hreyfingu annarra í lauginni styrktu þessa upplifun enn frekar. Að loknu floti var boðið upp á slökun í heitum potti en fólki var líka velkomið að slaka áfram á í lauginni.

Fyrir þau sem treysta sér yfirleitt til að fara eitthvað út, tel ég að ættu að íhuga að prófa að mæta í almennan tíma. Umhverfið hjá Flothettunni er mjög rólegt, hlýlegt og aðgengilegt. En á endanum verður auðvitað hvert okkar að meta sjálft hverju er hægt að taka þátt í.

Hvað ber að varast?

Eins og með allt sem tengist ME/LC er mikilvægt að hlusta á líkamann og forðast áreiti sem gætu valdið eftirköstum.

Heiti potturinn: Jafnvel stuttur tími í heitu vatni getur valdið auknu líkamlegu álagi, þreytu eða óþægindum.

Birtan í búningsklefanum: Lýsingin er mjög björt og því gott að hafa með sér gleraugu sem draga úr áhrifum birtu.

Snerting: Meðferðin hentar ekki þeim sem þola illa eða alls ekki snertingu. Leiðbeinendur eru reglulega í snertingu við líkamann og það er órjúfanlegur hluti af meðferðinni.

Gagnleg ráð fyrir þau sem ætla að prófa

  • Taka með sér náttföt eða mjúk heimaföt, til að spara orku og geta farið beint í hvíld heima.
  • Biðja um lægri hljóðstyrk ef tónlistin truflar.
  • Taka með sér eyrnatappa sem þola vatn, fyrir þau sem eru hljóðnæm.
  • Íhuga hvort sé betra að sleppa heita pottinum eftir tímann.

Flotmeðferðin hjá Flothettan er góð leið til að upplifa djúpa slökun og tímabundið frelsi frá þyngd líkamans og jafnvel verkjum. Upplifunin getur bæði verið nærandi og slakandi, að því gefnu að farið sé varlega og tekið mið af eigin mörkum.

ME félagið þakkar leiðbeinendum hjá Flothettunni innilega fyrir hlýjar móttökur og frábæra meðferð.

Félagsmönnum býðst 15% afsláttur af vörum og meðferðum hjá Flothettunni

Afsláttarkóði: vatnavinir

Vonandi geta sem flest prófað þessa róandi og einstöku meðferð.

Kær kveðja,

Helga Edwardsdóttir

formaður ME félags Íslands

Scroll to Top