Á síðustu mánuðum hefur Óskar Þór Halldórsson, fyrrv. blaða- og fréttamaður til margra ára, unnið að ritun yfirgripsmikillar bókar um Akureyrarveikina, veikina sem varð að miklum faraldri á árunum 1948-1949 á Akureyri og víðar um land og aftur 1955-1956 á Vestfjörðum og í Þistilfirði.
Þessari sögu hefur aldrei áður verið gerð skil með þessum hætti og byggir Óskar Þór frásögn sína á rituðum heimildum en ekki síður á munnlegum frásögnum, fólks sem veiktist á sínum tíma eða ættingja fólks sem veiktist.
Í ljósi þess að mikil líkindi eru með Akureyrarveikinni og afleiðingum hennar og ME-sjúkdómnum og langtímaafleiðingum Covid 19 fjallar Óskar Þór um þessa sjúkdóma og tengsl þeirra við Akureyrarveikina. Fjallar hann um þessa sjúkdóma frá ýmsum hliðum og ræðir við fjölmarga, þar á meðal vísindafólk og fólk sem hefur lengi þjáðst af ME eða langvarandi afleiðingum Covid.
Einn þeirra sem segir sögu sína í bókinni, sem er gert ráð fyrir að verði gefin út haustið 2025, er Gunnar Önnu Svanbergsson sjúkraþjálfari sem veiktist af Covid undir lok árs 2020. Hann fæddist 1965 og ólst upp í Ólafsfirði til fjögurra ára aldurs. Flutti þá með fjölskyldunni til Akureyrar og bjó þar til ársins 2012, þegar leiðin lá til Reykjavíkur. Gunnar lauk grunnnámi í sjúkraþjálfun árið 1992 og bætti síðan smám saman við sig meiri þekkingu í faginu, bæði hér á landi og erlendis, og meistaraprófi í heilbrigðisvísindum lauk hann árið 2012. Hann starfaði lengi sem sjúkraþjálfari á Akureyri og síðar í Reykjavík.
Eftirfarandi eru brot úr frásögn Gunnars í hinni væntanlegu bók um Akureyrarveikina, sem Óskar Þór Halldórsson, höfundur hennar, veitti ME-félaginu góðfúslegt leyfi til þess að birta á heimasíðu félagsins:
Áður en ég veiktist af Covid hafði ég lengi verið með áreynsluastma sem mér gekk alltaf vel að ráða við með pústi. Sérstaklega fann ég fyrir honum þegar kalt var í veðri, t.d. þegar ég fór á fjallaskíði eða gekk á fjöll á sumrin. Í kjölfar Covid fékk ég lungnabólgu í hægra lungað en fékk ekki meðferð við henni þar sem talið var að ekkert lyf myndi virka á hana.
Mér gekk illa að ná mér góðum og þegar vel var liðið á árið 2021 kom síðan í ljós lungnabólga í hinu lunganu og ég losnaði ekki við hana fyrr en eftir þriggja mánaða meðferð á háum skammti af sterum. Þessa fyrstu mánuði veikindanna fann ég fyrir ýmsum skrítnum einkennum, til viðbótar við lungnabólguna, eins og heilaþoku, miklum höfuðverk, verkjum fyrir brjósti, skjálfta og svima, jafnvel málstoli, að ekki sé talað um gífurlegt þróttleysi.
Þegar ég hafði lokið meðferð vegna lungnabólgunnar í byrjun árs 2022 hélt ég að nú væri ég kominn á beinu brautina. Þær vonir reyndust ekki á rökum reistar. Þróttleysið var enn þá ótrúlega mikið og ég fann að þrek mitt til þess að takast á við eitt og annað, sem vafðist ekki áður fyrir mér, var ekki til staðar.
Fyrir Covid-veikindin hafði ég ásamt öðrum stofnað fyrirtækið Stígandi sjúkraþjálfun í Reykjavík. Í kjölfar veikindanna reyndi ég af veikum mætti að sinna vinnunni en það gekk vægast sagt illa. Ég átti í erfiðleikum með að komast á fætur á morgnana vegna yfirgengilegrar þreytu. Var eiginlega tvöfalt þreyttari á morgnana en þegar ég fór að sofa á kvöldin. En einhver óútskýranlegur viljastyrkur, sem ég geri mér ekki grein fyrir hvaðan kemur, rak mig engu að síður í vinnuna. En þetta gekk engan veginn, ég fann að ég gat ekki sinnt vinnunni.
Þriðji eigandinn kom inn í fyrirtækið og ég minnkaði starfshlutfall mitt niður í 80%, síðan í 60% og loks í 50%. Ég lengdi sumarfríið mitt, ef ske kynni að það myndi hlaða batteríin. En ekkert breyttist. Ég var komin niður í að vinna tvo daga í viku, frá 9 til 12. Stundum þurfti ég að leggja mig á bekkinn í vinnunni eftir þessa þrjá tíma og ég komst við illan leik heim vegna örmögnunar.
Og ég var satt best að segja stórhættulegur í umferðinni þegar ég var að keyra heim úr vinnunni, stundum var engu líkara en að ég væri ekki á sama tíma og hinir í umferðinni og þurfti stöðugt að minna mig á hvar ég væri og hvað ég ætlaði að gera næst. Þá þurfti ég að stoppa á leiðinni og taka stöðuna. Ég passaði mig á að skipta sem allra minnst um akreinar og talaði við sjálfan mig til þess hreinlega að halda fókus, heilaþokan var slík.
Þegar ég fann að ég réð ekki við mína daglegu vinnu, ekki einu sinni hluta úr degi tvo daga í viku, tók ég þá ákvörðun að láta staðar numið í vinnu í bili og var í leyfi allt árið 2024. Þegar síðan kom í ljós þegar leið á árið að lítið sem ekkert hafði breyst varðandi heilsu mína gat ég ekki lengur slegið því augljósa á frest. Stígandi sjúkraþjálfun sem ég hafði ásamt vinkonu minni stofnað fjórum árum fyrr og lagt allt í, liðaðist þannig úr máttlausum fingrunum á mér. Niðurstaðan var að hætta alveg og ég seldi minn hlut í fyrirtækinu í árslok 2024.
Það hefur svo margt breyst á þeim tíma sem liðinn er síðan ég veiktist. Gamli Gunnar er farinn og það verkefni sem ég glími við á hverjum degi er að búa til og reyna að ná sáttum við nýjan Gunnar. Ég er allt annar en ég var. Annaðhvort lifir maður svona breytingar af eða ekki. Það sem gerir þetta svo erfitt fyrir marga er sú staðreynd að þetta er oft og tíðum ósýnilegur sjúkdómur, fólk er ekki með plástra, hækjur eða í hjólastól en hefur það engu að síður mjög skítt. Það má líkja þessu við að stýringin í tölvunni hrynji, maður fer í „save“ eða jafnvel „sleep mode“ og þá er fátt um bjargir.
Eðlilega fór allt á hvolf út um allan heim í Covid-faraldrinum og það hefur margt og mikið verið sagt um alla þá fjármuni sem í sóttvarnir og aðrar ráðstafanir voru settir og allt það fjárhagslega tap sem fyrirtæki og samfélög í heild sinni urðu fyrir. Síðan gekk mesti stormurinn yfir þó svo að við vitum að í loftinu er enn þessi ósýnilegi óvinur, Covid-veiran. Eftir liggja í valnum, að því er talið, um það bil eitt prósent af þeim sem veiktust af Covid, sem þýðir að á Íslandi erum við mögulega að tala um þrjú til fjögur þúsund manns. Og allt þetta fólk hefur það bara mjög slæmt. Þetta er týnda fólkið á Íslandi, fólkið sem heilbrigðiskerfið gleymdi.
Það hefði ekki þurft nema eina litla tilkynningu frá landlæknisembættinu eða öðrum úr heilbrigðiskerfinu til þess að gefa fólki von. Það hefði ekki þurft annað en að yfirvöld heilbrigðismála hefðu látið vita af því að þau vissu af okkur og í gangi séu rannsóknir út um allan heim á þessum langvarandi afleiðingum Covid 19. Þríeykið var inni í stofum landsmanna upp á hvern dag svo mánuðum skipti en svo einn góðan veðurdag sáust þau ekki meira – og ekkert meir. Það dró vissulega úr Covid en eftir stöndum við öll sem fórum mjög illa út úr þessum sjúkdómi og höfum lengi kallað eftir aðstoð.
Sjálfur er ég heilbrigðisstarfsmaður og því hefur mér sárnað öll þessi þögn. Þegar ég fór að heyra af því að fólk sem hefði farið illa út úr þessum veikindum væri að gefast upp og taka líf sitt fannst mér að ég gæti ekki lengur setið aðgerðalaus, ég yrði að gera eitthvað til að vekja yfirvöld aftur til lífsins.
Hjá mér hafa einkennin alltaf verið mun sterkari hægra megin í líkamanum. Ég átti bágt með að trúa því að þetta gæti staðist en þegar Friðbjörn Sigurðsson, læknir hjá Akureyrarklíníkinni, kom mér til Ólafs Árna Sveinssonar taugalæknis kom í ljós að ég hafði enga reflexa hægra megin. Þetta kom mér í opna skjöldu en þó ekki alveg því ég veitti því athygli að ég átti t.d. í miklum erfiðleikum með að ganga niður stiga. Ég hafði lengi velt fyrir mér af hverju ég þyrfti að halda mér í handriðið því það var engu líkara en hægri fóturinn vissi ekki hvað hann ætti að gera. Ég upplifði að ég þyrfti að bíða í hálfa til heila sekúndu eftir að boðin rötuðu á réttan stað, sem er eins og heil vika í heimi taugaskilaboða. Með öðrum orðum; á meðan þess er beðið að skilaboðin skili sér frá heilanum niður í fótinn veit hann ekki hvað hann á að gera.
Ekki ósvipaða hluti fór ég að upplifa með hægri hendina, hún lét ekki að stjórn eins og hún á að gera, vöðvar þrútnuðu og örmögnuðust hratt við litla áreynslu og þannig er það ennþá. Mér virðist því augljóslega vera rof í boðum frá heilanum í útlimi og þetta líkist á margan hátt því sem ég hef heyrt að fólk hafi upplifað í Akureyrarveikinni á sínum tíma. Ég hafði bara heyrt af þeirri veiki en vissi ekki hvað hún fól í sér fyrr en farið var að tala um hana í tengslum við ME og langvarandi afleiðingar Covid 19.
Margt af því sem fólk upplifði á sínum tíma í Akureyrarveikinni, til dæmis að veikindin herjuðu hjá mörgum á annan líkamshlutann meira en hinn, er á sömu nótum og ég og margir fleiri eru að takast á við í dag.
Sem afleiðing af því að hægri hluti líkamans er veikburða fékk ég á árinu 2024 fjórða brjósklosið í mjóbakið sem leiddi niður í vinstri fótinn. Eitt leiðir af öðru, þegar veikleiki kemur fram á einum stað í líkamanum eykur það líkurnar á einhverjum afleiðingum annars staðar. Hjá mér er líkamsstaðan ekki rétt vegna þessa veikleika hægra megin og það hefur haft sínar afleiðingar.
Þrátt fyrir þá skoðun mína að heilbrigðiskerfið hafi gleymt okkur sem erum að glíma við langvarandi afleiðingar Covid skal því haldið til haga að það var mjög mikilvægt og jákvætt skref þegar Akureyrarklíníkin var sett á stofn. Hins vegar er hún ekki fær um að uppfylla sín markmið og sinna sínu hlutverki nema henni sé tryggt nægjanlegt fjármagn frá ríkisvaldinu.
Það verða allir að leggjast á eitt. Fyrst af öllu verður að viðurkenna vandann og gera allt sem hægt er að gera til þess að hjálpa öllum þeim fjölmörgu sem eru í sömu sporum og ég. Það skiptir ekki bara okkur öll miklu máli, þetta er gríðarlega stórt mál fyrir samfélagið. Ég hef kallað eftir upplýsingum um hversu margir eru í svipuðum sporum og ég en ekki fengið svör, trúlega vegna þess að þær upplýsingar eru ekki til. Og ég hef líka verið að leita upplýsinga um hversu margir hafa tekið líf sitt vegna þess að viðkomandi hafa hreinlega gefist upp í sinni veikindabaráttu og ekki séð nema svartnætti fram undan. Þær upplýsingar eru heldur ekki til.
Og svo er eitt enn sem vert er að velta fyrir sér í þessu sambandi: hver er kostnaður samfélagsins af því að mikill fjöldi fólks á besta aldri geti ekki verið lengur á vinnumarkaði og lagt þar sitt af mörkum? Í staðinn fyrir að allt þetta fólk leggi inn er það nú í þeirri stöðu að taka eingöngu út. Þetta er grafalvarlegt mál fyrir þetta fólk og samfélagið í heild sinni en þetta er einfaldlega blákaldur veruleikinn. Það er staðreynd að þetta er í dag mjög stór hópur sjúklinga í samfélaginu en hann er jafnframt að töluverðu leyti týndur.
Ég reyni eins og kostur er að fylgjast með hvað er í gangi í rannsóknum á þessum langvarandi afleiðingum Covid 19 og mér virðist eitt og annað vera að gerast, sem er ljós í myrkrinu. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt fram á að þetta er bólgusjúkdómur sem sest á bæði úttauga- og miðtaugakerfi líkamans og á augljósan skyldleika við MS-sjúkdóminn. Mér finnst líklegast að þessi langvarandi áhrif Covid séu einhvers konar árás veirunnar á ónæmiskerfið og það styðja ýmsar rannsóknir. Bólgur sem herja á úttauga- og miðtaugakerfið skýra af hverju það koma fram svona veikleikar í hluta líkamans.
Út frá því sem ég hef verið að lesa um þær rannsóknir sem eru í gangi út um allan heim trúi ég því að vísindunum takist fyrr en síðar að skýra hvað þarna er á ferðinni og þar með að hjálpa öllu þessu fólki – og um leið þeim fjölmörgu um allan heim sem af ýmsum ástæðum hafa fengið ME-sjúkdóminn. Raunar er það svo að þeir sem hafa búið við langvarandi afleiðingar Covid eru greindir með ME, ég þar á meðal. Það liggur fyrir að það eru nokkur líkindi með ME og MS-sjúkdómnum. Vísindin kunna skil á ýmsum veiruárásum, ég nefni til dæmis svínaflensu og fuglaflensu. Það eru með öðrum orðum ýmsar þekktar stærðir en stóra verkefnið er að púsla þessu öllu saman og skilja samhengið. Mögulega verður það eina jákvæða sem út úr þessum Covid-faraldri kemur að vísindin finni út úr einu og öðru varðandi ME og MS.
Minn veruleiki er gjörbreyttur. Áður var ég fyrstur á fætur á morgnana á heimilinu en núna er mikið átak að koma sér fram úr rúminu. En ég reyni þó alltaf að fara á fætur með konunni minni, þegar hún fer til sinnar daglegu vinnu, og tek um leið minn daglega skammt af ADHD-lyfjum. Mér finnst þau gera mér gott því þau hífa mig upp úr þokuslæðingnum. Ég reyni að fara út á hverjum degi og ganga eitthvað smávegis og yfir vetrarmánuðina fer ég eins oft og ég get í golfhermi sem hefur oft og tíðum bjargað minni andlegu heilsu. Ég er að reyna við golfíþróttina núna, en það er erfitt að ganga um vellina. Því hef ég fjárfest í rafmagnskerru en það dugar ekki alltaf.
Einnig er svo mikilvægt að hitta aðra því svona veikindum fylgir mikil hætta á félagslegri einangrun. Ég er stöðugt að vinna í því að kveðja mína eldri útgáfu og búa til nýja. Eðlilega hefur dregið úr tengslum við marga af mínum gömlu vinum sem ég var með í fjallamennskunni, hjólreiðum eða annarri útivist. Staðan er einfaldlega sú að ég get ekki fylgt þeim lengur eftir. Áður sjálfgefinn tilgangur hefur á augabragði snúist upp í andhverfu sína og maður reynir að finna nýjan tilgang í einhverju sem maður áður kallaði réttilega tómstundir.
Þrátt fyrir allt er í þessari stöðu svo mikilvægt að leggja reiðina og sorgina til hliðar og einblína frekar á hvernig hægt er að lifa lífinu á jákvæðan hátt út frá breyttum forsendum. Liður í því hjá mér er að fara í golfherminn og hitta félagana. Oftast er það seinni hluta dags og þá daga hvíli ég mig vel fyrri hluta dags, til þess að hafa orku í að geta tekið þátt. En suma daga má ekki mikið út af bera til þess að ég keyri á vegg, þá er engu líkara en ég sé skyndilega aftengdur og verði þá að drífa mig heim og leggja mig. Það má líkja þessu við að vatni sé hellt yfir tölvulyklaborð og þá verður einhvers konar skammhlaup sem gerir það að verkum að takkarnir á lyklaborðinu skila ekki því sem þeim er ætlað.
Auðvitað hef ég farið upp og niður allan tilfinningaskalann, oft og mörgum sinnum. Þetta er eins og hvert annað stóráfall sem fólk verður fyrir í lífinu. Smám saman þarf maður að læra að takast á við nýjan veruleika og sjá tilgang í því að fara á fætur á hverjum degi. Og það er, þrátt fyrir allt, mikilvægt og nauðsynlegt að brosa og finna sér nýjan tilgang í lífinu. Ef hann er ekki til staðar er lítið eftir.
Gunnar Önnu Svanbergsson sjúkraþjálfari sem veiktist af Covid undir lok árs 2020