Ræða Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur í tilefni opnun Akureyraklíníkurinnar

Stofnun Akureyrarklíníkurinnar, þekkingar- og ráðgjafarmiðstöð um ME-sjúkdóminn og langvarandi eftirstöðvar Covid-19, var formlega sett á fót. 

Ræða Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur:

8 ár

Fyrir 8 árum síðan veikist ég alvarlega af ME.

Þáverandi heimilislæknir þvingaði mig til vinnu aftur alltof snemma, þar sem mín beið vinnustaður sem með hótunum þvingaði mig til að segja upp störfum.

Öryggisnetið reyndist ekkert.

Veikindi mín urðu fyrir vikið í kjölfarið margfalt, margfalt verri en þau hefðu *nokkurn tímann þurft að verða*.

Ég var algjörlega ein í baráttu minni.

Ég var rúmföst. Ófær um að sjá um sjálfa mig. Í ólýsanlegri vanlíðan.

Opnun Akureyrarklíníkarinnar í dag markar gríðarlega stór tímamót. Svo stór að ég á erfitt með að klökkna ekki þegar ég hugsa um það. Ef viðlíka klíník hefði verið til staðar þegar ég veikist, þá hefði ég að líkindum aldrei orðið jafn veik og ég varð. Ég hefði aldrei þurft að upplifa svona mörg ár af hræðilegri vanlíðan, örvæntingu og vonleysi.

Þessi áfangi verður vonandi til þess að enginn annar þurfi nokkurn tímann að ganga í gegnum það sem ég og ótal aðrir höfum þurft að ganga í gegnum.

  • Að enginn annar þurfi að verða rúmfastur eða heimilisfastur árum saman, að óþörfu.
  • Að enginn annar þurfi að kveljast svo óendanlega mikið að erfitt sé að sjá tilgang með lífinu, að óþörfu.

Ég geri miklar væntingar til að Akureyrarklíníkin geti stuðlað að því að fólk verði gripið snemma. Að það verði verndað gegn skilningsleysi samfélagsins og kerfa þess. Að það verði eflt á sinni vegferð og leiðbeint í átt að framförum og bata.

Að því verði gefið tækifæri á að endurheimta lífið.

Það er erfitt að lýsa því hversu mikilvægt það verður fyrir svo marga, sjúklinga, maka þeirra, börn, fjölskyldu og vini. Og samfélagið allt.

Ekki öll okkar hafa lifað það hlutskipti af, að þjást af ME en fá enga hjálp. Mig langar að tileinka þeim erindi mitt í dag.

Það er gríðarlega mikið undir.

Sérstakar þakkir skilið á Friðbjörn Sigurðsson. Án hans stæðum við ekki hér í dag. Sömuleiðis eiga hæstvirtur heilbrigðisráðherra og landlæknir hrós skilið, fyrir að hlusta.

Loks fá Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Norðurlands þakkir fyrir að taka þetta verkefni að sér.

Til hamingju með daginn. 16. ágúst 2024 er stór dagur fyrir svo marga. Ólýsanlega stór.

Horfa á ræðuna á Facebook, ræða Vilborgar byrjar á mínútu 51:50

Scroll to Top