ME félag Íslands mótmælir harðlega ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að hætta greiðsluþátttöku vegna vökvagjafar hjá sjálfstætt starfandi sérgreinalæknum frá og með 1. október 2025, sbr. svarbréf þeirra til Samtaka POTS á Íslandi erindi #239096
Ákvörðunin mun hafa alvarleg áhrif á POTS sjúklinga um land allt. Mörg þeirra lifa einnig með ME og/eða Long Covid, sjúkdóma sem geta verið mjög hamlandi og þarfnast sértækrar meðferðar. Fyrir mörg hefur vökvagjöf verið mikilvægur hluti af einkennastjórnun, bætt lífsgæði og stuðlað að aukinni færni til daglegra athafna.
Þrátt fyrir að vökvagjöf sé ekki formlega viðurkennd sem gagnreynd meðferð við POTS, benda reynsla sjúklinga og lækna til þess að hún geti veitt verulegan stuðning og dregið úr einkennum eins og svima, hraðslætti og mikilli þreytu. Að svipta þessa hópa þessari meðferð án fullnægjandi valkosta eða ráðgjafar getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu þeirra og velferð.
ME félag Íslands hvetur Sjúkratryggingar til að endurskoða ákvörðunina, hafa samráð við sjúklinga og fagfólk og leita lausna sem tryggja að engin verða skilin eftir án nauðsynlegrar meðferðar. Með hag allra POTS sjúklinga að leiðarljósi — þar á meðal þeirra sem einnig glíma við ME og Long Covid — er brýnt að finna mannúðlega og faglega lausn.
Sjá einnig viðtal á Vísi hér
