Ný heimasíða ME félags Íslands opnuð 12. maí

ME félag Íslands hefur opnað nýja og glæsilega heimasíðu og er það sérstaklega ánægjulegt að geta opnað hana á alþjóðlegum degi ME sjúkdómsins. Við erum mjög ánægð með nýtt útlit og sérstaklega ánægð með nýjar undirsíður.

Hönnun og vinna við vefinn hefur staðið yfir í vel á annað ár, þó með hléum þegar orkustig hefur verið lágt hjá stjórnarmönnum.

Halla Kolbeinsdóttir, stafrænn ráðgjafi hjá Mennskri ráðgjöf, hannaði og setti vefinn upp af mikilli fagmennsku og hefur sýnt stjórnarmönnum mikinn skilning á síðbúnum svörum, sveiflukenndu vinnuframlagi og þolinmæði við kennslu í hringiðu heilaþoku. Um leið og við óskum henni til hamingju með nýja vefinn okkar, þá þökkum við henni kærlega fyrir frábært samstarf og hlökkum til að viðhalda heimasíðunni áfram með henni.

Auðlesið mál er ný undirsíða sem við erum sérstaklega stolt af. Auðlesni textinn var unnin í mjög góðu samstarfi við Snorra Rafn Hallson verkefnastjóra hjá Miðstöð um auðlesið mál og kunnum við honum miklar þakkir fyrir að setja upp textann og leiðbeina okkur í þessu ferli. Þetta hefur verið mjög lærdómsríkt og við vonum að þessi nýjung muni nýtast vel þegar þörf er á.

Aðrar nýjar undirsíður eru meðal annarra “Er Long Covid ME?”, “Akureyrarklíník”, “Jafningjastuðningur”, “UngME” og “Sögurnar okkar”.

Einnig hefur verið sett upp nýtt viðmót fyrir nýskráningar í félagið og eru þeir sem skrá sig komnir í árlega áskrift að félagsgjaldi, nema óskað sé eftir öðru. Núverandi félagsmönnum er velkomið að skrá sig í áskrift en þurfa þess ekki. Það yrði aðallega til að einfalda ferlið og utanumhald fyrir félagið.

Við viljum hvetja alla til að kynna sér heimasíðuna og vonum að hún muni falla í góðan jarðveg.

Með kveðju,

stjórn ME félags Íslands

Scroll to Top