Útgáfuhóf
Föstudaginn 29. ágúst á Akureyri — Föstudaginn 5. september í Reykjavík. Öll hjartanlega velkomin.
Athugið breytta staðsetningu fyrir Reykjavíkurviðburðinn, úr Gunnarshúsi yfir í sal Læknafélags Íslands þar sem er betra aðgengi og rými fyrir alla.

Undanfarin tvö ár hefur Óskar Þór Halldórsson unnið að ritun bókar um Akureyrarveikina og nú er komið að útgáfu hennar. Svarfdælasýsl forlag gefur bókina út.
Þessari nýju tæplega 400 bls. bók um Akureyrarveikina, sem ber einfaldlega heitið Akureyrarveikin, fylgir höfundur úr hlaði með kynningu í Kvosinni, samkomusal Menntaskólans á Akureyri, kl. 17:00 föstudaginn 29. ágúst.
Auk bókarhöfundar flytja ávörp í útgáfuhófinu á Akureyri læknarnir Friðbjörn Sigurðsson og Kristín Sigurðardóttir, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og Kristín Sóley Sigursveinsdóttir á Akureyri.
Viku síðar, föstudaginn 5. september kl. 17:00, verður kynning á bókinni í sal Læknafélags Íslands, 4. hæð Hlíðarsmára 8 í Kópavogi.
Þar taka einnig til máls auk höfundar Friðbjörn Sigurðsson og Kristín Sigurðardóttir og einnig flytja ávörp Sigurður Guðmundsson fyrrv. landlæknir og Ásta Þórunn Jóhannesdóttir, varaformaður ME félags Íslands. Öll eru hjartanlega velkomin á bókarkynningarnar á Akureyri og í Reykjavík.

Veturinn 1948-1949 reið Akureyrarveikin yfir.
Í byrjun var talið að um lömunarveiki væri að ræða en síðar kom í ljós að svo var ekki og enn þann dag í dag hefur ekki verið leitt í ljós hvaða veiki þetta var. Frá því um mitt ár 1949 hefur faraldurinn ávallt verið kallaður Akureyrarveikin – á ensku Akureyri disease eða Iceland disease.
Talið er að um eitt þúsund manns á Akureyri hafi veikst eða um 15% bæjarbúa. Veikin var ekki einungis á Akureyri, hún barst víða um land, t.d. var faraldur á Ísafirði, í Skagafirði, Vestur-Húnavatnssýslu og víðar. Aftur stakk Akureyrarveikin sér niður veturinn 1955-1956 á Vestfjörðum og í Þistilfirði.
Í bókinni, sem er ríkulega myndskreytt, fjallar Óskar Þór um Akureyrarveikina frá ýmsum hliðum – útbreiðslu, afleiðingar og rannsóknir. Lífsreynslusögurnar í bókinni eru átakanlegar. Margir náðu sér aldrei til fulls. Höfundur ræddi við fjölda fólks, meðal annars fólk sem veiktist af Akureyrarveikinni og afkomendur fólks sem veiktist, og studdist við umfangsmiklar heimildir til að varpa ljósi á mál sem lengi hefur legið í þagnargildi.
Áratugum eftir þennan faraldur beinist athygli vísindafólks aftur að honum því mikil líkindi eru með Akureyrarveikinni, ME sjúkdómnum og alvarlegum eftirköstum COVID-19. Þessum tengslum Akureyrarveikinnar, ME og eftirköstum COVID-19 eru gerð ítarleg skil í bókinni og fólk sem glímir við ME segir sögu sína.
Svarfdælasýsl forlag selur bókina í útgáfuhófunum á Akureyri 29. ágúst og í Reykjavík 5. september.
Bókin verður síðan til sölu hjá Svarfdælasýsl forlagi og verður hægt hægt að panta hana hjá höfundi, Óskari Þór Halldórssyni, með tölvupósti á netfangið oskarthor61@gmail.com, hringja í síma 898 4294 eða með skilaboðum á höfund á Facebook.
Einnig verður bókin til sölu í bókaverslun Forlagsins að Fiskislóð 39 í Reykjavík.
ME félag Íslands færir Óskari Þór Halldórssyni hamingjuóskir með útgáfu bókarinnar og innilegar þakkir fyrir ómetanlegt starf við ritun hennar. Með þessu mikilvæga verki hefur hann vakið athygli á sögulegum atburðum sem varpa ljósi á veikindi sem snerta fólk enn í dag. Bókin er mikilvægur þáttur í að varðveita minni þeirra sem urðu fyrir áhrifum faraldursins og styrkir jafnframt umræðuna um ME sjúkdóminn, afleiðingar langtíma Covid og afleiðingar langvinnra veikinda af völdum veirusýkinga.
