


Aðalfundur ÖBÍ réttindasamtaka fór fram á Grand Hotel í Reykjavík föstudaginn 3. október og laugardaginn 4. október. Fundurinn var vel heppnaður og einkenndist af samhug og góðum framtíðarhugsjónum.
ME félag Íslands sem aðildarfélag á rétt á þremur fulltrúum á aðalfundi ÖBÍ, og sóttu þær Helga formaður, Ásta varaformaður og Hanna gjaldkeri fundinn fyrir hönd félagsins. Á fundinum bauð Helga sig fram sem skoðunarmaður reikninga hjá ÖBÍ, og var kjörin til þess hlutverks. Þess má geta að Hanna hefur verið varamaður í málefnahóp húsnæðismála og mun hún halda áfram því góða starfi.
Þátttaka félagsins í starfi ÖBÍ er mikilvæg og okkur er ljúft og skylt að leggja okkar af mörkum í sameiginlegri baráttu fyrir réttindum alls fatlaðs fólks. Á fundinum gáfust einnig góð tækifæri til að ræða við fulltrúa annarra félaga um samstarf og gagnkvæman stuðning, sem er mikils virði.
Við óskum Ölmu Ýr Ingólfsdóttur, sem hlaut endurkjör sem formaður ÖBÍ, innilega til hamingju og hlökkum til áframhaldandi samvinnu um réttindabaráttu og jöfnuð.
Ályktun aðalfundarins:
„ÖBÍ réttindasamtök skora á ríkisstjórn Íslands að koma í veg fyrir að örorkulífeyristakar verði af þeim kjarabótum sem breytt örorkulífeyriskerfi boðaði. Hjá stórum hópi lífeyristaka mun engin kjarabót eiga sér stað þar sem nauðsynlegar breytingar á greiðslum örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum hafa ekki verið gerðar.
Svokölluð „víxlverkun“ á milli þessara tveggja kerfa, þýðir að greiðslur sem stór hópur fær frá lífeyrissjóðum munu lækka um jafnháa upphæð og örorkulífeyrir almannatrygginga hækkar.
Það er löngu tímabært að finna viðeigandi lausn á víxlverkuninni til framtíðar svo koma megi í veg fyrir frekari kjararýrnun og röskun á högum lífeyristaka. Fram til þessa hafa lífeyristakar endurtekið verið sviknir um kjarabætur. Þá áréttar ÖBÍ að lausnin megi ekki fela það í sér að etja saman örorku- og ellilífeyristökum. ÖBÍ krefst þess að ríki og lífeyrissjóðirnir axli ábyrgð og tryggi lausn hið fyrsta.“