ICC greiningin – International Consensus Criteria

Árið 2011 komu fram ný og endurbætt greiningarviðmið frá stórum hópi ME sérfræðinga. Þau voru kölluð International Consensus Criteria, skammstafað ICC. ME félag Íslands réðist í að láta þýða þessa greiningu og birti hér á heimasíðunni.

Um ICC greiningarviðmiðin

Sjúkdómsheitið chronic fatigue syndrome (CFS) eða síþreyta hefur verið notað í mörg ár um sjúkdóminn sem hér er til umfjöllunar, þar sem hvorki var vitað um orsakavald sjúkdómsins né hvernig hann þróast. Nýlegar rannsóknir og klínísk reynsla meðferðaraðila gefa sterklega til kynna að um sé að ræða útbreiddar bólgur og taugabilanir í fjölmörgum kerfum líkamans. Því er réttara og meira lýsandi að nota heitið myalgic encephalomyelitis (ME) eða vöðvaverkir vegna heila- og mænubólgu þar sem  það vísar til undirliggjandi lífeðlismeinafræði. Þetta heiti er einnig í samræmi við taugafræðilega flokkun WHO, Alþjóða heilbrigðismála-stofnunarinnar á ME; International Classification of Diseases (ICD G93. 3).

Stofnuð var alþjóðleg nefnd sérfræðinga, lækna, rannsóknaraðila og prófessora í læknisfræði ásamt óháðum málsvara sjúklinga. Nefndin hafði það að markmiði að þróa ný greiningarviðmið sem byggð væru á nýjustu þekkingu á sjúkdómnum. Sérfræðingarnir í hópnum eru frá þrettán löndum og með víðtæk sérsvið. Samanlagt hafa þeir um það bil 400 ára reynslu af lækningum og kennslu, hafa gefið út mörg hundruð faggreinar og hafa sjúkdómsgreint eða meðhöndlað um það bil 50.000 ME-sjúklinga.

Nokkrir í hópnum unnu einnig að fyrri greiningarviðmiðum. Sérþekking og reynsla þeirra sem og PubMed og aðrir læknisfræðilegir gagnabankar nýttust í ferlinu og kom hópurinn með uppástungur, gerði uppköst, gagnrýndi og endurbætti. Höfundarnir náðu 100% samkomulagi með því að beita verklagi sem líkist Delphi-aðferðinni en enginn þeirra var í tengslum við nokkurn styrktaraðila.

Þessi skýrsla takmarkast við greiningu á ME-sjúkdómnum og hvernig hún skuli fara fram og er því farið inn á flókna einkennafræði. Leiðbeinandi athugasemdir sem fylgja greiningunum varpa ljósi á einkenni sjúkdómsins og benda á leiðir til að lýsa einkennunum og útskýra. Viðmiðunarreglur fyrir klíník og rannsóknir stuðla að því að heilsugæslulæknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn sem koma fyrstir að málum geti átt auðveldara með að átta sig á einkennum ME-sjúkdómsins. Þær stuðla einnig að auknu samræmi í greiningu á fullorðnu fólki og börnum um allan heim og auðvelda val á sjúklingum fyrir rannsóknir.

Inngangur

ME-sjúkdómurinn, sem einnig hefur verið kallaður síþreyta (chronic fatigue syndrome, CFS) er flókinn sjúkdómur sem lýsir sér í mikilli óreglu í virkni miðtaugakerfisins og ónæmiskerfisins, truflun í efnaskiptum frumuorku og flutningi jóna sem og í frávikum í hjarta- og æðakerfi.  Undirliggjandi lífeðlismeinafræði veldur mælanlegum frábrigðum í líkamlegri og hugrænni virkni og er grunnur þess að hægt sé að skilja sjúkdómseinkennin. Sú þekking sem nú er til og kemur hér fram í ICC greiningunni ætti því að auka skilning heilbrigðisstarfsmanna á ME og gagnast bæði læknum og sjúklingum í heilbrigðiskerfinu sem og við klínískar rannsóknir.

Vandamálið við greiningarviðmið sem hafa breiða skírskotun er að sjúklingahópurinn verður ekki einsleitur. Samkvæmt mati stofnana sem vinna að sjúkdómavörnum tífaldaðist algengi ME úr 0,24%, ef Fukuda viðmiðið var notað, í 2,54% samkvæmt Reeves reynsluviðmiði.

Jason og félagar  benda á að gallar séu á aðferðafræði Reeves þar sem hægt er að falla undir reynsluviðmiðið fyrir ME án þess að hafa nokkur líkamleg einkenni. Það greinir heldur ekki á milli sjúklinga sem hafa ME eða síþreytu og þeirra sem þjást af alvarlegu þunglyndi. Sjúklingahópar sem samanstanda af fólki sem þjáist ekki af sjúkdómnum skekkja útkomu rannsókna, leiða til ófullnægjandi sjúkdómsmeðferðar og sóunar á takmörkuðum rannsóknarfjármunum. Sum sjúkdómseinkenni Fukuda-viðmiðsins skarast við þunglyndi, en hinsvegar gera kanadísk greiningarviðmið (Canadian Consensus Criteria) greinarmun á ME-sjúklingum og þunglyndissjúklingum og skilgreina sjúklinga sem eru líkamlega veiklaðari og hafa meiri líkamlega og hugræna skerðingu á starfshæfni.

Um greininguna

Unnið var út frá kanadísku greiningunni (Canadian Consensus Criteria) en á henni voru gerðar mikilvægar breytingar. Ekki er lengur krafist sex mánaða biðtíma áður en hægt er að staðfesta sjúkdómsgreiningu. Engin önnur sjúkdómsviðmið krefjast þess að beðið sé með sjúkdómsgreiningu þar til sjúklingurinn hefur þjáðst í sex mánuði. Enda þótt klínískar rannsóknir taki mislangan tíma og geti dregist á langinn ætti sjúkdómsgreiningin að fara fram þegar læknirinn er sannfærður um að sjúklingurinn þjáist af ME frekar en að sjúkdómsgreiningin takmarkist við einhvern ákveðinn tíma. Ef sjúkdómurinn er greindur snemma getur það varpað nýju ljósi á fyrstu stig sjúkdómsmyndarinnar. Meðhöndlun á byrjunarstigi sjúkdómsins getur dregið úr alvarleika hans og áhrifum.

Þegar orðið ,þreyta‘ er notað í nafni á sjúkdómi takmarkar það áherslurnar í meðhöndlun hans og hefur valdið miklum misskilningi og verið misnotað sem skilgreining. Enginn annar sjúkdómur sem veldur þreytu hefur síþreytu í nafninu svo sem krabbamein/síþreyta, MS/síþreyta – nema ME/síþreyta (chronic fatigue syndrome).

Þreyta sem fylgir öðrum sjúkdómum fer venjulega eftir því hversu mikið sjúklingurinn reynir á sig og hversu lengi og sjúklingurinn nær sér fljótt Hann finnur svo fyrir þreytunni aftur við sömu áreynslu í jafnlangan tíma, samdægurs eða degi síðar. Hin afbrigðilega lágu þreytumörk ME-sjúklinga sem lýst er í þessari greiningu birtast við lágmarks líkamlega eða andlega áreynslu og í skertri getu til að endurtaka sömu athöfnina, samdægurs eða degi seinna.

Þessi greining skilgreinir þau mynstur og þær afmörkuðu samstæður af sjúkdómseinkennum sem finnast í ME. Hið breiða svið sjúkdómseinkenna gerir heilbrigðisstarfsfólk meðvitað um meinafræði sjúkdómsins og með því er hægt að skilgreina mikilvæg einkenni á nákvæmari hátt. Leiðbeinandi athugasemd sem fylgir hverju greiningarviðmiði segir til um hvernig einkennin birtast og hvernig skal túlka þau í samhengi. Það auðveldar heilsugæslulæknum að átta sig á og meðhöndla ME-sjúklinga allt frá byrjun.

Greiningin sjálf

ME er áunninn taugasjúkdómur sem veldur flókinni og víðtækri vanvirkni.  Helstu einkenni eru afbrigðileg óregla í tauga-, ónæmis- og innkirtlakerfunum ásamt skertum efnaskiptum frumuorku og flutningi jóna. Þrátt fyrir að einkennin skarist sífellt og séu í orsakasamhengi flokkar greiningin einkennin í ákveðin svið innan sjúkdómafræðinnar svo áherslurnar verði skýrari. Sjúklingur mun sýna einkenni örmögnunar vegna áreynslu (A), að minnsta kosti ein einkenni úr þremur flokkum taugarýrnunar (B), að minnsta kosti ein einkenni úr þremur flokkum ónæmis/maga- og þarma/þvag-og kynfæraskerðingar (C), og að minnsta kosti ein einkenni truflunar í efnaskiptum/flutningi orku (D).

Notkun greiningarinnar

Viðmið fyrir sjúkdómsgreiningar þjóna tvennskonar nauðsynlegum en mismunandi hlutverkum – í fyrsta lagi að greina einstaklinga við klínískar aðstæður og í öðru lagi að finna sjúklingahópa fyrir rannsóknir.

Rannsóknirnar á bakvið greiningarviðmiðin

Viðmiðunareinkennin styðjast við rannsóknir á yfir 2500 sjúklingum sem leiddu í ljós þau sjúkdómseinkenni sem voru mest einkennandi fyrir ME. Rannsóknir á tjáningu og uppbyggingu gena styðja ennfremur sameindagreiningu, þar með talin frábrigði sem hafa aukna oxunarstreitu, breytt ónæmis- og aðrenvirk boð og breytta estrógen viðtakatjáningu. 

Að auki eru vísbendingar sem sýna fram á erfðafræðilega tilhneigð til ME sem bendir til umbreytinga í genum sem flytja serótónín, í geni sem er viðtaki sykurstera, sem og aðkomu HLA-flokks II. Hugsanleg sameiginleg áhrif þessara umbreytinga hafa hlotið takmarkaða umfjöllun.

Almennar eldri rannsóknir hafa leitt til óhlutlægra niðurstaðna eins og að það sé engin tenging við HLA arfgerð. Rannsóknir á sjúklingum sem eru tvíburar gáfu til kynna að umhverfisþættir hafi meiri áhrif heldur en erfðatilhneigð í stærra úrtaki sjúklinga.

Vandamál vegna ósamkvæmni í niðurstöðum rannsókna hafa verið skilgreind og sýna meðal annars að nauðsynlegt er að gera rannsóknir á stærra úrtaki sjúklinga með betur skilgreinda svipgerð og að þá yrði gert ráð fyrir að sjúklingar geti flokkast í undirflokka sjúkdómsins. Í Reeves-rannsókn á reynsluviðmiðum sem Jason og félagar gerðu kom fram að 38% sjúklinga sem voru greindir með þunglyndi á háu stigi voru rangflokkaðir sem síþreytusjúklingar og aðeins 10% þeirra sem greindir voru með síþreytu þjáðust í raun af ME-sjúkdómnum. Þar af leiðandi er það höfuðmarkmið þessarar skýrslu um samþykkt greiningarmarkmiðað setja skýrari og nákvæmari klínísk viðmið sem munu auðkenna sjúklinga sem þjást af ME og eru með afbrigðilega lág þreytumörk og einkenni sem blossa upp við líkamlegaáreynslu. Það verður til þess að sjúklingar verða greindir og skráðir í alþjóðlegar rannsóknir undir tilfellaskilgreiningum sem viðurkenndar eru af læknum og rannsakendum um allan heim.

Niðurstaða

Alþjóðlegu greiningarviðmiðin veita ramma fyrir sjúkdómsgreiningu á ME-sjúkdómnum sem er samhljóma mynstrum af sjúkdómafræðilegri vanvirkni sem finna má í útgefnum niðurstöðum rannsókna og klínískri reynslu. Einkennamynstur hafa kvika samverkan vegna þess að þau eru orsakatengd. Þetta hafa sumir rannsakendur fjallað um formlega og notað virta tækni með fjölbreytutölfræði, svo sem greiningu á sameiginlegum atriðum eða aðal-frumþáttum, til að koma auga á samsetningu einkenna. Aðrir hafa notað þessar aðferðir til að leiða greiningu á genatjáningusniðritum og til að draga upp undirflokka sjúklinga.

Í samræmi við þessa nálgun er sérfræðinganefnd að þróa alþjóðlegan einkennaskala (ICSS) sem mun byggja á þessum undirliggjandi, samverkandi þáttum. Samt sem áður er nauðsynlegt að skilgreina mælanlega þætti sem skipta mestu máli varðandi sjúkdóminn sem fyrsta skref í áttina að því að koma á fót megindlegu stigi fyrir greiningartæki.  Að búa til slíka greiningu var aðalmarkmið þessarar vinnu og við teljum að alþjóðlegu greiningarviðmiðin muni hjálpa til við að gera sérstök einkenni ME-sjúkdómsins skýrari.

Mikilvægt er að taka fram að höfuðáherslan núna verður að vera á klínískt mat. Val á rannsóknarviðfangsefnum mun koma síðar. Þess vegna er sérfræðingahópurinn að þróa leiðbeiningar fyrir lækna sem í verður aðferðalýsing fyrir sjúkdómsgreiningar sem byggist á alþjóðlegu greiningarviðmiðunum ásamt meðferðarleiðbeiningum sem taka mið af því sem vitað er um sjúkdóminn á hverjum tíma. Einstaklingar, sem samkvæmt alþjóðlegu greiningarviðmiðunum eru haldnir ME-sjúkdómnum, ættu ekki að vera í Reeves-reynsluviðmiðinu eða NICE-viðmiðinu (National Institute for Clinical Excellence) fyrir síþreytu.

Þessar leiðbeiningar eru sérstaklega ætlaðar heilsugæslulæknum í þeirri von að þær megi flýta fyrir sjúkdómsgreiningu og meðferð strax við fyrstu heimsókn til læknis. Þetta getur orðið til þess að þróuð verði aðferðalýsing fyrir styttri skimun eða styttri útgáfa af leiðbeiningunum sem myndi byggja á einkennum sem tengjast.

Í fyrsta skipti er nú orðið til verkferli fyrir klíníska, barna-, og rannsóknarvinnu sem mun stuðla að auknum skilningi á vöðvaverkjum vegna heila-og mænubólgu og auka samræmi í sjúkdómsgreiningunni á heimsvísu.

Skyldubundin greiningarviðmið gera kleift að safna saman sambærilegum gögnum úr ýmsum áttum og geta leitt til þess að þróuð verði sjálfkvæm lífmerki og að frekari innsýn fáist í virkni og orsök ME.

Fjármögnun

Allir höfundar gerðu grein fyrir hugsanlegum hagsmunaárekstrum og allir þátttakendur hafa lýst því yfir að þeir eigi engra hagsmuna að gæta.

Yfirlýsing vegna hagsmunaárekstra

Engir styrktaraðilar komu að gerð þessarar skýrslu. Allir höfundar gáfu tíma sinn og sérþekkingu og enginn hefur fengið greiðslu eða þóknun fyrir vinnu sína.

Scroll to Top