IOM 2015
Beyond Myalgic Encephalomyelitis/Chronic Fatigue Syndrome: Redefining an Illness
Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum fengu The Institute of Medicine (IOM) til að endurmeta CFS (eins og sjúkdómurinn hefur verið kallaður þarlendis). IOM skýrslan kom út í febrúar 2015 en af ýmsum ástæðum hefur hún ekki náð mikilli útbreiðslu. Höfundar greiningarinnar vildu endurnefna sjúkdóminn vegna þess ósættis sem lengi hefur staðið um nafngiftina CFS og ME. Þeir komu fram með nýja nafnið SEID (systemic exertion intolerance disease) sem náði ekki fótfestu.
NICE 2007
Leiðbeiningar til lækna í Bretlandi
The NICE guidelines eru hinar opinberu leiðbeiningar heilbrigðisyfirvalda í Bretlandi sem læknum í opinbera kerfinu ber að fylgja. Þessi útgáfa frá 2007 var mjög umdeild því í henni var mælt með GET (stigvaxandi áreynslu) og CBT (hugrænni atferlismeðferð) og því haldið fram að þetta væru sönnuð meðferðarúrræði. Þessum tilmælum var loks breytt í október 2021 og læknum ráðið frá að mæla með GET og CBT sem meðferð við ME.
Nightingale greiningin 2007
Rannsóknarsetur í Kanada
Þetta er metnaðarfull tilraun til að skilgreina ME og reyna að koma fram með greiningarviðmið. Hún var sett fram af Nightingale Research Foundation sem er ME rannsóknarsetur í Kanada. Þessi greining er ekki notuð.
Börn og unglingar 2006
Lengst af var engin sérstök greining til fyrir börn og unglinga.
Úr því var bætt árið 2006 og fram kom A Pediatric Case Definition for Myalgic Encephalomyelitis and Chronic Fatigue Syndrome. Það er hægt að nálgast hana á síðu CDC eða með því að smella á takkann hér fyrir neðan.
CDC greining fyrir börn og unglinga 2006 (pdf)
Reeves greiningin 2005
Reeves CFS (síþreytu) greiningin var birt á BMC Medicine sem er læknisfræðilegt veftímarit.
Hún er ófullkomin því ekki er tekið fram að PEM (eftir-álags örmögnun) þurfi að vera til staðar. PEM er grunnþáttur í ME og það sem einkennir sjúkdóminn öðru fremur. Ennfremur sýndi rannsókn að 38% þunglyndissjúklinga voru ranggreindir með síþreytu (CFS) ef greiningin var notuð. Hún er ekki notuð i klínískum lækningum.
Kanadíska greiningin 2003
Sérfræðingar frá ýmsum löndum komu að henni og var hún birt 2003.
Heilbrigðisyfirvöld í Kanada áttu frumkvæðið að því að þessi ME/CFS greining var gerð. Það ríkti almenn ánægja með þessa greiningu, bæði meðal ME sérfræðinga og sjúklinga. Þar réði mestu að hún nær að skilja frá þá sem aðallega þjást af andlegum veikindum. Einnig nær hún að greina ME þótt sjúklingur mæti ekki viðmiðum um þreytumörk (uppfylli þeir önnur skilyrði).
CDC 2003
Greiningarviðmið endurskoðuð og prófuð
Hin opinberu greiningarviðmið CDC frá 1994 hafa nokkrum sinnum verið endurskoðuð. Árið 2003 komust sérfræðingar frá ýmsum löndum að þeirri niðurstöðu að þau væru ófullkomin og næðu til mun fleiri sjúkdóma en ME. Árið 2005 var gefin út endurbætt útgáfa af greiningarviðmiðunum. Þau voru prófuð árið 2009 af nokkrum sérfræðingum (DePaul University) og reyndust enn vera vankantar á þeim.
Fukuda greiningin 1994
(CDC í Bandaríkjunum)
Þetta var þekktasta síþreytugreiningin (CFS) lengi vel. Hún átti að sníða vankantana af Holmes greiningunni frá 1988, þ.e.a.s. nýja greiningin átti að koma í veg fyrir að sjúklingar með geðvanda fyrst og fremst féllu undir hana. Nú þurftu sjúklingar aðeins að uppfylla 4 skilyrði af 8. Í þessa greiningu vantaði þó 3 af höfuðatriðum ME/CFS: Svefn veitir ekki hvíld, PEM (eftir-álags-örmögnun) og skert skammtímaminni og einbeiting.
London greiningin 1994
Þessi ME greining var fyrst og fremst samin í rannsóknartilgangi.
The Association for Financial Markets in Europe (AFME) stóð fyrir rannsókninni. Ókláruð útgáfa hennar var gefin út árið 1994. Ekki í notkun.
Oxford greiningin 1991
CFS greining (síþreytugreining) sem samin og notuð var af geðlæknum í Bretlandi.
Þessi greining er ekki eins nákvæm og London greiningin og hún nær auðveldlega yfir þá sem þjást af þreytu án annara einkenna. Þannig geta margir aðrir en ME sjúklingar fallið inn í hana og því er hún ekki gagnleg til greiningar á ME.
Holmes greiningin 1988
(CDC í Bandaríkjunum)
Fyrsta tilraun til greiningar á CFS (síþreytu). Stundum kölluð Holmes greiningin eftir höfundi hennar. Sjúklingur skyldi sýna 8 af 11 tilteknum einkennum. Greiningin hafði þann galla að undir hana féllu sjúklingar með geðvanda. Það var þó ekki ætlunin. Þessi greining er ekki lengur notuð.
Ramsay greiningin 1986
Ramsay er sá sem gaf þessum sjúkdómi nafnið Benign Myalgic Encephalomyelitis en kaus síðar að sleppa orðinu benign.
Árið 1955 kom upp faraldur á Royal Free sjúkrahúsinu í London. Dr. Melvin Ramsay gerði honum skil í bókinni Myalgic Encephalomyelitis and Postviral Fatigue States: The saga of Royal Free disease árið 1986. Ramsay greiningin er ekki notuð í dag.