
Akureyrarklíníkin
Formleg stofnun 2024
16. ágúst 2024, að viðstöddu fjölmenni í Menntaskólanum á Akureyri, var Akureyrarklíníkin formlega sett á stofn með undirritun heilbrigðisráðherra, Willums Þórs Þórssonar, og forstjórum Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN).
Auk þeirra þriggja fluttu ávörp Alma Möller landlæknir, Friðbjörn Sigurðsson læknir, Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala og Jonas Bergquist læknir og prófessor við Uppsalaháskóla í Svíþjóð, einn helsti sérfræðingur heims í rannsóknum á ME sjúkdómnum.

Úr áfangaskýrslu starfshóps
September 2023
Starfshópur Sjúkrahússins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands
„Það er vel til fundið að miðstöð um ME sjúkdóminn verði starfrækt á Akureyri, enda er Akureyrarveikin þekkt um allan heim. Þótt Akureyrarveikin hafi hvorki verið sá fyrsti af faröldrum ME né sá síðasti er hún samt þekktust og er það vegna þess hversu vel sjúkdómurinn var skráður á sínum tíma, fylgst var með sjúklingum í áratugi og niðurstöður birtar í bestu læknatímaritum heims.
Til þessa hefur sjúklingum með ME sjúkdóminn ekki verið sinnt nægilega vel af heilbrigðiskerfinu.
Jafnvel hefur borið á því að sjúklingum sé ekki trúað, þeir taldir vera að gera sér upp einkenni eða séu með taugaveiklun. Sem betur fer eru viðhorf nú að breytast, sérstaklega eftir að fjöldi sjúklinga er mikið að aukast eftir Covid-19 faraldurinn.“