12. maí,
Alþjóðadagur ME sjúkdómsins
Ár hvert nýtir ME félag Íslands þennan alþjóðlega dag til að fræða almenning um ME sjúkdóminn. Oft er ákveðið þema valið til umfjöllunar.
Alþjóðadagur vitundarvakningar um ME sjúkdóminn
12 maí
ME félagið heldur utan um herferðir liðinna ára á þessari safnsíðu.
2025 – Ný vefsíða, #MEer herferð og fleira
Gleym-mér-eyjar (Forget-ME-Nots) eru táknrænar fyrir ástvini sem fólk saknar, og því hafa þær orðið alþjóðleg einkennisblóm ME-sjúkdómsins. Þær standa fyrir hverja þá mannveru sem vinir og vandamenn sakna. Það fólk sem atvinnulifið fer á mis við, og þá sem sakna eigin sjálfs og sjálfsmyndar sem veikindin hafa svipt af sjónarsviðinu. Gleym-mér-eyjar minna okkur jafnframt á að ME-sjúkir og aðstandendur þeirra njóta alls ekki þeirrar heilbrigðisþjónustu og stuðnings sem brýn þörf er á.
Ný vefsíða, herferðir og viðtöl
2024 – ME og langvinnt Covid. EMEA kröfulisti
Nú er mikið rætt um tengsl ME og langvinns Covid. Fyrstu rannsóknir gefa til kynna að margt sé sameiginlegt með þessum kvillum og það verður spennandi að fylgjast með því hvert framhaldið verður. Í ár setur European ME Alliance fram kröfulista þar sem farið er fram á við ráðafólk í Evrópu að ME sé betur sinnt í heilbrigðiskerfinu, stjórnkerfum heilsumála og í háskólum.
ME og langvinnt Covid, EMEA kröfulisti
2023 – Jaðarsetning ME sjúklinga. Stutt myndband
Í ár bendir ME félagið á jaðarsetningu ME fólks.
ME sjúklingar eru jaðarsettir í heilbrigðiskerfinu og fá oft rangar meðferðir vegna þekkingarleysis heilbrigðisstarfólks á sjúkdómnum. Rangar meðferðir valda versnun á heilsu.
Nemendur með ME sjúkdóminn eru jaðarsettir í skólakerfinu og fá ekki viðeigandi aðlögun, því að skólastjórnendur fá ekki fræðslu um þeirra fötlun, sem hefur valdið því að nemendur hætta í námi.
Myndband um jaðarsetningu ME fólks
2022 – Aukin þekking með nýjum greiningarviðmiðum
Í ár leggur ME félagið áherslu á aukna þekkingu innan vísindasamfélagsins um sjúkdómsgreiningu og meðferðir við ME sjúkdómnum í kjölfar þess að tvö mikilvæg greiningarviðmið birtust á síðasta ári. Félagið lét þýða báðar þessar greiningar yfir á íslensku og eru þær aðgengilegar hér á heimasíðunni okkar. Einnig er ný mynd um ME kynnt.
Aukin þekking með nýjum greiningarviðmiðum
2021 – Ný íslensk skýringarmynd um ME
Þetta er annað árið sem Covid-19 setur strik í reikninginn og fer 12. maí því aftur fram á netinu. Að þessu sinni býður félagið upp á frumsýningu á nýrri, íslenskri skýringarmynd um ME. Einnig birtist grein eftir Friðbjörn Sigurðsson lækni í Morgunblaðinu í tilefni dagsins.
Stuttmynd um ME
2020 – Bréf til fjölmiðla og útvarpsviðtal
Þar sem samkomubann hefur ríkt vegna Covid-19 var ákveðið að boða ekki til sérstaks viðburðar í tilefni dagsins heldur senda bréf til fjölmiðla þar sem vakin er athygli á því að ME tilfellum fjölgar gjarnan í kjölfar faraldra eins og nú gengur yfir heiminn.
Bréf og viðtal
2018 – Millions Missing á Akureyri
Ákveðið var að taka aftur þátt í Millions Missing átakinu. Að þessu sinni var farið til Akureyrar í tilefni þess að liðin voru 70 ár frá Akureyrarveikinni sem skildi eftir sig marga ME sjúklinga.
Millions Missing átak 2018
2017 – Millions Missing á Austurvelli
Frá stofnun árið 2011 hefur félagið boðað til kaffihittings 12. maí en árið 2017 tók það í fyrsta sinn þátt í alþjóðaátakinu Millions Missing. Boðað var til viðburðar á Austurvelli þar sem vakin var athygli á þeim sem eru fjarverandi frá samfélaginu og eigin lífi vegna sjúkdómsins.
Millions Missing átak 2017