Þér er boðið á opinn fyrirlestur Prófessors Ola Didrik Saugstad hinn 8. apríl 2025 Fyrri hluti: Myalgic Encephalomyelitis (ME) Seinni hluti: Súrefnisnotkun við endurlífgun nýbura: Frá hreinu súrefni til lofts Allir velkomnir Reykjavík Á vegum ME félags Íslands, þriðjudaginn 8. apríl kl 14:00 í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar, Sturlugötu 8. Fundinum verður einnig streymt á Zoom. |

Með árunum hefur Prófessor Saugstad orðið talsmaður sjúklinga með ME og gagnrýnt þá skaðlegu meðhöndlun sem sjúklingar hafa fengið í gegnum tíðina. Á þeim þrjátíu árum sem hann hefur einbeitt sér að ME-sjúkdómnum hefur hann lagt áherslu á nauðsyn aukinnar viðurkenningar og skilnings á sjúkdómnum. Prófessor Saugstad er þó þekktastur fyrir framlag sitt til barnalækninga, sérstaklega á sviði endurlífgunaraðferða fyrir nýbura. Seinni hluti fyrirlestursins mun fjalla um þau fræði. Heimsókn Prófessors Saugstad til Íslands er fjölþætt, meðal annars ætlar hann að kynna sér Akureyrarklínikina ásamt fulltrúum frá ME félagi Noregs og ME félagi Íslands. Auk þess mun hann halda fyrirlestra á Akureyri, sækja heim lækna, vísindamenn og annað heilbrigðisstarfsfólk, til að fræðast um aðstæður og rannsóknir á Íslandi. Pistill á ensku eftir Prófessor Ola Didrik Saugstad um ME í börnum og ungmennum: (Myalgic Encephalomyelitis (ME) in the Young. Time to Repent) Ferilskrá Prófessors, Ola Didrik Saugstad Dagskrá Fundarstjóri: Kristín Sigurðardóttir, slysa- og bráðalæknir. 14:00 Setning: María Heimisdóttir, landlæknir. Fyrirlestur: Innsýn í rannsóknir á ME og eftirstöðvum Covid. Fyrirlesari: Prófessor Ola Didrik Saugstad. 14:45 Hlé og umræður. 15:00 Fyrirlestur: Baráttan um súrefnið. Fyrirlesari: Prófessor Ola Didrik Saugstad. Streymi á Zoom |
Um fyrirlestrana Myalgic Encephalomyelitis (ME) klukkan 14:00 Ola Didrik Saugstad, MD, PhD, Prófessor í barnalækningum, Oslo/Chicago ME-sjúkdómurinn er verulega hamlandi sjúkdómur af lífeðlisfræðilegum uppruna sem hefur áhrif á fjölmörg kerfi líkamans. Hann veldur þrungandi magnleysi sem hvíld bætir ekki úr, skertri getu til hugrænna athafna, svefnröskun, kvölum, og fjölmörgum öðrum sjúkdómseinkennum. Um fjórðungur ME-sjúkra verða það veik á einhverjum hluta sjúkdómsferilsins að þau eru rúmliggjandi. Sjúkdómurinn hrjáir fólk í öllum aldurshópum, með algengasta upphaf sjúkdóms í kringum tvítugt og milli 40-45 ára. Sjúkdómurinn leggst frekar á konur en menn. Algengi ME er á uppleið, mat þess er upp á 4-9 einstaklinga af hverjum þúsund. Á heimsmælikvarða hefur verið áætlað að um 17-24 milljónir sjúklinga sé að ræða, en nýlegri tölur benda til allt að 70 milljóna víðsvegar um heiminn. Nákvæmlega hvað veldur ME er ekki enn þekkt, en um 70-80% tilfella koma í kjölfar sýkinga. Breytingar á ónæmiskerfinu, lífefnafræðilegt álag, skerðing á orkuframleiðslu, og hugsanlegir erfðafræðilegir áhættuþættir geta komið við sögu sjúkdómsins. Meðal þeirra klínísku atriða sem sjást í ME-sjúklingum má nefna bólgur í miðtaugakerfi, starfstruflanir í æðaþeli, skerðing á nýtingu súrefnis, hæging efnaskipta, og sjálfsmótefni. Þá hefur einnig verið sýnt fram á aukinn frumudauða vegna virkjunar ónæmiskerfisins, breytingar á þarmaflóru, starfstruflanir í sjálfvirka taugakerfinu, og skerðingu á loftfirrtri afkastagetu í sjúklingum með ME. Sem stendur er ekki til lækning. En nýlegar rannsóknir á naltrexone og cyclophosphamide eru lofandi. Það er vel þekkt að sýkingar af ýmsum toga geta einnig leitt til annarra veikinda en upphaflegu sýkingarinnar, og hliðstæðurnar í sjúkdómseinkennum ME og eftirstöðva Covid-sýkingar eru fjölmargar. Nýverið hafa rannsakendur verið að kanna hlutverk raskana í beinagrindarvöðum og vanvirkni hvatbera í bæði sjúklingum með ME og með eftirstöðvar Covid-sýkingar. Súrefnisnotkun við endurlífgun nýbura: Frá hreinu súrefni til lofts klukkan 15:00 Ola Didrik Saugstad, MD, PhD, Prófessor í barnalækningum, Oslo/Chicago Í tvær aldir var hreint súrefni það sem mælt var með til endurlífgunar nýbura. En fyrir um 45 árum fór ég að velta ágæti þeirrar nálgunar fyrir mér. Ég mældi hypoxanthinegildi í blóðvökva kafnaðra nýbura. Hypoxanthine er púrínsumbrotsefni sem eykst við súrefnisskort, og er vísir fyrir hann. Ennfremur, þegar xanthine oxidasi oxar hypoxanthine í þvagsýru myndast súrefnis-sindurefni. Á þessum grunni byggðust rannsóknir á endurlífgun nýbura með innilofti í stað 100% súrefnis. Þær hófust snemma á tíunda áratug tuttugustu aldar, og var fyrsta greinin um undirbúningsrannsóknina birt árið 1993. Árið 1998 birtum við svo fjölsetrarannsókn (Resair 2) sem sýndi fram á að endurlífgun nýbura með innilofti væri að minnsta kosti jafn árangursrík og með 100% súrefni. Nokkrum árum síðar var fyrsta kerfisbundna yfirlitsgreinin birt, sem sýndi fram á 30% lægri dánartíðni þegar fullburða og nærri fullburða nýburar voru endurlífguð með innilofti í stað 100% súrefnis, sem væri ávísun á 2-300.000 færri dauðsföll á heimsvísu árlega. Nákvæmlega hvað veldur er ekki fyllilega útskýrt enn, en hypoxanthine-xanthine oxidasa kerfið eykur á oxunarálag, og kemur við sögu í stýringu blóðflæðis í fæðingu. Að auki hamlar endurlífgun með yfirmagni súrefnis virkni hvatbera, mögulega vegna þess að erfðaþættir sem koma við sögu í ATP framleiðslu eru tempraðir niður. Þessar rannsóknir lögðu grunninn að breyttum aðferðarlýsingum fyrir endurlífgun nýbura. Árið 2010 voru alþjóðleg viðmið (ILCOR) fyrir endurlífgun fullburða og nærri fullburða nýbura uppfærð frá meðmælum um 100% súrefni til meðmæla um notkun lofts. Umfram lækkaða dánartíðni hafa rannsóknir einnig sýnt fram á að um þriðjungur hinna svokölluðu „nýlega andvanna fæddra“ barna sem áður hefðu ekki getað verið endurlífguð á lágtekjusvæðum, er hægt að endurlífga með loftun með lofti frekar en 100% súrefni. Þessi breyting ber með sér möguleikann á að bjarga um 300.000 lífum til viðbótar ár hvert. Þar með má koma í veg fyrir andlát allt upp undir 500.000 nýbura á ári með því að beita lofti við endirlífgun þeirra í stað 100% súrefnis. Heimild: Saugstad OD. Oxygenation of the newborn. The impact of one molecule on newborn lives. J Perinat Med. ;51(1):20-26. |