top of page

Sumarskóli á Írlandi um samning SÞ


Námskeið á Írlandi í sumar

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) veitir nokkrum félagsmönnum aðildarfélaga sinna styrk til þátttöku í sumarskóla um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF).

Sumarskólinn verður haldinn dagana 15. til 19. júní 2020 í National University of Ireland, Galway (NUIG), á vesturströnd Írlands. ÖBÍ skorar á félagsmenn aðildarfélaga sinna að sækja um styrk til ferðarinnar. Þeir sem hljóta styrk þurfa að vera tilbúin til að nýta sér þekkingu sína á SRFF í baráttunni innan síns aðildarfélags og/eða ÖBÍ.

Um sumarskólann Markmið sumarskólans er að þátttakendur öðlist innsýn í SRFF og góða færni til að nýta sér efni hans. Kennarar, leiðbeinendur og fyrirlesarar sumarskólans koma víða að og eru m.a. fatlað fólk, aktívistar, fræðimenn og stjórnmálafólk. Allir þekkja vel til réttinda fatlaðs fólks og hafa annað hvort komið að gerð SRFF og/eða eru þekktir baráttumenn ásamt því að vera stjórnvöldum aðildarríkja SRFF innan handar við innleiðingu samningsins.

Nemendahópurinn er breiður og samanstendur að jafnaði af einstaklingum frá öllum heimsálfum sem allir eiga það sameiginlegt að vilja gera betur í réttindamálum fatlaðs fólks og skapa gott tengslanet. Sumarskólinn gerir engar kröfur um þekkingu á samningnum og býður alla velkomna.

Dagskrá sumarskólans 2020 Líkt og í fyrri sumarskólum er almenn kynning á ákvæðum samningsins, réttindum sem í honum felast og hvaða þýðingu hann hefur fyrir fatlað fólk. Megináhersla sumarskólans í ár verður á þátttöku fatlaðs fólks í menningarlífi, afþreyingu, tómtundum og íþróttum.

Um styrk ÖBÍ Styrkur ÖBÍ miðast við að greidd verði námskeiðsgjöld, ferðakostnaður og gisting sem samsvarar kostnaði við gistingu á háskólasvæðinu (Campus). Jafnframt er kostnaður greiddur vegna aðstoðarmanns fyrir þá sem þurfa á því að halda. Umsóknir skulu berast í síðasta lagi 2. mars næstkomandi til móttöku ÖBÍ á netfangið mottaka@obi.is á viðeigandi eyðublaði.

Undirbúningsnámskeið fyrir styrkþega Styrkþegum gefst kostur á að sækja stutt kynningarnámskeið sem haldið verður

8. júní á vegum ÖBÍ á grunnþáttum og hugtökum SRFF sem undirbúning fyrir sumarskólann.

Nánari upplýsingar Þórný Björk Jakobsdóttir veitir nánari upplýsingar á netfanginu thorny@obi.is og í síma 530 6700. Einnig er hægt að nálgast upplýsingar um sumarskólann á heimasíðu Centre for Disability Law and Policy, National University of Ireland, Galway.

°°°°°°°°°°°°°°

Viðmið um val á umsækjendum um styrk ÖBÍ til þátttöku í sumarskóla

um SRFF í Galway, Írlandi

  1. Félagsmenn og starfsmenn aðildarfélaga geta sótt um styrk.

  2. Þeir ganga fyrir sem ekki hafa farið áður.

  3. Við val á styrkþegum er horft til hópsins í heild sem fer út með tilliti til fjölbreytileika.

  4. Ferða- og gistikostnaður vegna aðstoðarmanna eða túlka er greiddur sérstaklega og hefur ekki áhrif á val á styrkþegum.

  5. Styrkþegar þurfa að skuldbinda sig til að vera ÖBÍ innan handar við kynningu á samningnum eftir að sumarskóla lýkur.

  6. Styrkur ÖBÍ miðast við að greitt er fyrir gistingu sem samsvarar kostnaði fyrir gistingu á háskólasvæðinu sem er næst skólanum (Campus), námskeiðsgjöld og ferðakostnað.

Viðmiðin voru tekin fyrir á fundi framkvæmdaráðs 2. mars 2016 og samþykkt á stjórnarfundi 31. mars 2016


Fréttir
bottom of page